HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

HVER GÆTIR ÞINNA HAGSMUNA?

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga (KVH) er stéttarfélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga. Félagið sér um að gera kjarasamninga fyrir hönd félagsmanna, bæði á almennum og opinberum vinnumarkaði.  Það vinnur að bættum kjörum félagsmanna, gætir réttinda þeirra og er óháð starfsvettvangi, vinnuveitanda eða ráðningarformi.

Alls eru greiðandi félagsmenn nú tæplega 2.000. Um 55% starfar á almennum vinnumarkaði en 45% hjá hinu opinbera.

KVH hefur það að markmiði að félagsmenn þess njóti bestu mögulegrar þjónustu og hagsmunagæslu á hverjum tíma. KVH er aðili að Bandalagi háskólamanna.

Aðsetur KVH og BHM er að Borgartúni 6, Reykjavík.

Á skrifstofu KVH er svarað í síma og veitt ráðgjöf er hér segir:

Mánudaga – fimmtudaga 13:00-16:00.

Föstudaga 9:00-12:00.

Fyrir almennar heimsóknir er hægt að bóka ráðgjöf og fjarfundi í síma 595-5140 eða: [email protected]

Efst á baugi


Staða kjarasamningsviðræðna

Kjarafélag viðskiptafræðinga og hagfræðinga hefur fundað að nýju með SNR (Samninganefnd ríkisins) á nýju ári eftir þriggja vikna fríi að frumkvæði SNR.

Félagið hefur átt einn fund með SNR í janúar og er næsti fundur áætlaður á þriðjudaginn. Ráðgert er að funda tvisvar sinnum í viku næstu þrjár vikurnar.

Félagið hefur ekki fundað með samninganefnd Reykjavíkurborgar eftir áramót og ekki er komin dagsetning á næsta fund.

Engir fundir hafa fengist með samninganefnd Sambands íslenskra sveitarfélaga (SNS).

Frekari fréttir af stöðunni verða birtar hér á heimasíðunni í framhaldinu

Lífið í harkinu – málþing um stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks fimmtudaginn 30. janúar.

BHM efnir til málþings um stöðu sjálfstætt starfandi háskólafólks fimmtudaginn 30. janúar nk. á Grand hótel Reykjavík. Yfirskrift málþingsins er „Lífið í harkinu – sjálfstætt starfandi háskólafólk í breyttum heimi“. Það er opið öllum sem áhuga hafa, án endurgjalds og meðan húsrúm leyfir, en skrá þarf þátttöku fyrirfram á vef BHM.

Í Evrópu og víðar færist í vöxt að háskólamenntað fólk sé sjálfstætt starfandi eða sé bæði í föstum störfum og vinni sem verktakar. Þróunin helst í hendur við breytingar á vinnumarkaði sem kenndar hafa verið við harkhagkerfið (e. gig economy). Í stuttu máli felast þessar breytingar í því að fyrirtæki og stofnanir velja fremur að útvista verkefnum en ráða fasta starfsmenn til að sinna þeim. Ný tækni hefur auðveldað útvistun en hún fer í auknum mæli fram gegnum svokallaða netvanga (e. digital platforms) sem eru sérhæfðar vefsíður sem tengja saman kaupendur og seljendur þjónustu.

Víðast hvar er þó ráðningarsamband enn grundvöllur vinnumarkaðstengdra réttinda sem ýmist eru bundin í lögum eða kjarasamningum. Þessi réttindi ná yfirleitt ekki nema að mjög takmörkuðu leyti til fólks sem er sjálfstætt starfandi. Í nágrannalöndunum hafa stéttarfélög lýst áhyggjum af stöðu fólks sem vinnur í harkhagkerfinu og gripið til ráðstafana til að bæta réttindi þess.

En hver er staðan hér á landi?
Fer sjálfstætt starfandi háskólafólki fjölgandi eða fækkandi?
Hvaða breytingar þarf að gera á lögum og reglum til að bæta stöðu þessa hóps?
Hvernig geta stéttarfélög háskólafólks bætt þjónustu sína við sjálfstætt starfandi félagsmenn?

Þetta eru meðal spurninga sem ræddar verða á málþinginu 30. janúar.

Dagskrá

13:00 Setning
Þórunn Sveinbjarnardóttir, formaður BHM

13:10 Vinnumarkaður framtíðarinnar – hvaða breytingar eru framundan?
Katrín Ólafsdóttir, lektor við HR

13:40 How can unions support and represent the self employed?
Kirstine Baloti, sérfræðingur HK í Danmörku

14:15 Kaffihlé

14:40 Lagaumhverfið – er breytinga þörf?
Andri Valur Ívarsson, lögmaður BHM

15:10 Pallborðsumræður

15:50 Samantekt fundarstjóra

16:00 Málþingi slitið

Fundarstjóri er Gunnlaugur Már Briem, varaformaður Félags sjúkraþjálfara.

Málþingið er opið öllum sem áhuga hafa, án endurgjalds og meðan húsrúm leyfir, en skrá þarf þátttöku fyrirfram á vef BHM.

Smellið hér til að skrá þátttöku.

 

Úthlutun úr vísindasjóð KVH

Gert er ráð fyrir að úthlutað sé úr Vísindasjóð KVH um miðjan febrúar 2020.

 

Vísindasjóður KVH

Vísindasjóður KVH, líkt og vísindasjóðir annarra aðildarfélaga BHM, var stofnaður með kjarasamningunum 1989. Í sjóðinn leggur launagreiðandi fram 1,5% af dagvinnulaunum launþega.

Hverjir eiga rétt á úthlutun ?

Allir fullgildir félagar, sem greitt hefur verið fyrir í sjóðinn á hverju almanaksári, og sem taka laun eftir kjarasamningum KVH við Samband íslenskra sveitarfélaga og Reykjavíkurborg, eiga rétt á styrk. Einnig þeir félagsmenn á almennum vinnumarkaði sem samið hafa við vinnuveitanda sinn um greiðslur í sjóðinn.

Félagsmenn sem starfa hjá ríki eiga ekki lengur rétt á úthlutun úr vísindasjóði. Í kjarasamningum KVH og ríkisins 2008 var framlag vinnuveitanda í vísindasjóð aflagt með þeim hætti að launatafla var hækkuð um 2,0%, vegna breytinga á vísindasjóðsframlagi.

Á almenna vinnumarkaðinum er aðild að vísindasjóði valkvæð eins og áður segir og geta félagsmenn samið í ráðningarsamningi við vinnuveitanda um greiðslur í sjóðinn.

Styrkfjárhæð og úthlutunarmánuður

Styrkfjárhæð er miðuð við innborgun í sjóðinn á almanaksári, nú síðast tímabilið 1. janúar 2019 – 31. desember 2019. Úthlutað er úr sjóðnum árlega, í febrúar.

Ekki þarf að sækja sérstaklega um úthlutun úr vísindasjóðnum.

Skattaleg meðferð:

Styrkurinn er forskráður á skattframtal styrkþega og er talinn fram til skatts eins og aðrar tekjur. Gera skal sundurliðaða grein fyrir þeim kostnaði sem framteljandi telur fram á móti styrknum, á sérstöku undirblaði á vefframtali.  Nánari upplýsingar er að finna á vef ríkisskattstjóra, www.rsk.is

Forsíða

Félagsaðild

Í boði er meðal annars:

  • Fæðingarstyrkir og sjúkradagpeningar
  • Starfs- og endurmenntunarstyrkir
  • Sumarbústaðir og orlofshúsnæði, innanlands og erlendis

Námsmannaaðild

Námsmenn í viðskiptafræði eða hagfræði á háskólastigi, sem lokið hafa a.m.k. 60 einingum (ECTS) geta sótt um námsmannaaðild að KVH (NKVH). Slík aðild felur m.a. í sér:

  • Aðgang að upplýsingum og leiðbeiningum félagsins er snerta störf og kjör á vinnumarkaði
  • Aðstoð við gerð ráðningarsamninga
  • Aðgang að námskeiðum/málstofum KVH á ári hverju. Efni námskeiðanna eru fjölbreytt og höfða til námsmanna
  • Gjöf frá KVH þegar að námi lýkur